föstudagur, 15. júní 2007

Ævintýrið


Tæland – Stiklað á stóru

Ævintýraförin til Tælands hófst í Kaupmannahöfn þar sem var verslað pínu í H&M og fleiri skemmtilegum búðum. Hitti Arndísi mússíkrúsluna mína og fórum á smá pöbbarölt og ég sýndi henni besta satðinn í bænum, Streckers, þar sem fallegi Tyrkinn syngur öll föstudagskvöld. Var einmitt að heyra það að hann sé mjög vinsæll hjá íslensku kvenfólki og hefur sængað hjá þeim þónokkrum! Næsta dag röltum við um borgina yndislegu, fengum okkur bakkesli og bjór og nutum veðurblíðunnar. Heimskóknin endaði svo á Tivoli, þar sem ég varð vitni að Arndísi og Grétari verða að sönnum Kaupmannarhafnarbúum, því þau keyptu sér árskort í Tivoli. Ég og Grétar gerðumst það djörf að fara í fallturninn sem ég verð nú að segja að sé mun verri í minningunni en í alvörunni. Eftir fallega flugeldasýningu fórum við heim í ból, því ég þurfti að vakna nokkuð snemma og drífa mig á flugvöllinn.

Flugið til Bangkok var rosa flott, fyrirtaks þjónusta og stór og góð sæti og skemmtilegt sjónvarpsefni alla 11 klst en gekk ekki átakalaust fyrir sig! Ég var búin að hlakka til að geta farið að sofa bara í 8-10 klst.....en nei! Fyrir framan mig var lítið barn sem grét stanslaust og aftan mig pjakkur sem gat ekki hætt að sparka í bakið á sætinu mínu þó ég margbæði hann um að hætta og pabba hans! URG! Ég var sem sagt mjög syfjuð alla leiðina en gat ekki sofnað! Pirr pirr! En svo komum við til Bangkok og tókum strax klst flug til borgar í norður Tælandi sem heitir Chiang Mai. Þegar þangað var komið á lúxus 4 stjörnu hótel með afbrags þjónustu var farið beint í hand- og fótsnyrtingu og afslöppun. Enda nudd-og snyrtistofur á hverju horni og verðið er hlægilega lítið! Það var soldið skrítið og erfitt að venjast því hvað allt var samt frekar skítugt og druslulegt (auðvitað ekki á hótelinu) í borginni og hvað fólkið var tilbúið til að gera ALLT fyrir mann. Þau eru rosalega undigefin og maður veit halfpartinn ekki hvernig maður á að bregðast við því. Maður finnur líka rosalega fyrir því að maður sé hvítur og ríkur! Við erum á allt öðru plani en þetta fólk! Þau borða og sofa á gólfunum í búðunum sínum og hundar og kettir ganga laus og eru voða drusluleg. Fyrsti dagurinn var frekar erfiður hvað þetta varðar, mér leið hálfóþæginlega. Örugglega vottur af smá menningarsjokki! Bjóst ekki við að sjá svona mikinn mun. Vissi að þetta myndi verða öðruvísi en ekki að þetta væri svona mikið þróunarland. Okkur var svo sagt að það væri mikil uppbygging í gangi í landinu og kóngurinn, sem by the way, eru myndir út um allt af, leggur mikla áherslu á það, enda er hann dyrkaður þarna eins og guð! Á mánudögum klæðast allir gulu, því kóngurinn fæddist á mánudegi og það er dagur guls litar og það að klæðast gulu er honum til heiðurs.
Næsta dag keyrðum við út fyrir borgina til að fara að hitta fílana. Það var snild! Þetta eru rosa flottar og stórar skepnur og gaman að sjá hvað þeir geta gert mikið. Það var haldin smá sýning fyrir okkur þar sem fílarnir gerðu ýmsar kúnstir og fóru í fótbolta og máluðu myndir sem voru rosa flottar! Því næst fórum við í fílareið! Það var einstakt! Alveg rosalega gaman! Algjört must að gera það allavegana einu sinni á ævinni! Ég mun alveg pottþétt gera það aftur!
Næstu daga vorum við bara e-ð að ferðast um svæðið þarna í kringum Chiang Mai og skoða e-a grasagarða og konungsverkefni og e-ð. Voða lítið að segja frá því.


Því næst fórum við í þjóðgarð, Doi Inthanon, þarna í norður Tælandi eða hitabeltisregnskóg þar sem við áttum eftir að vera í 4 daga og 3 nætur! Húsin sem við gistum í voru sem betur fer ekki inni í miðjum skóginum en þau voru nú nógu ógirnileg samt! Pöddur út um allt og rifur og glufur í gólfinu, gluggunum og þakinu. Ég eyddi fyrsta kvöldinu þarna í að teypa fyrir allar glufur sem ég fann til að verða ekki étin á næturnar! Rúmin voru hörð sem grjót og það þurfti að hreinsa þau vel áður en lagts var í þau. Sturtan var nú ágæt fyrir utan allar pöddurnar sem voru alltaf með manni í baði. Og ótrúlegt en satt var venjulegt klósett sem hægt var að sturta niður og það mátti setja klósettpappírinn ofan í klósettið. Næstu dagana fórum við sem sagt í langar gönguferðir frá morgni til kvölds inni í skóginn og upp á hæsta tind Tælands, sem er mun hærri en hæsti tindur Íslands. Þá fórum við einnig að skoða hrísgrjónaræktir og kaffiræktir og fleiri ræktir og svo fórum við líka í fjallaþorp þar sem allt var mjög frumlegt! Það var æðislegt að sjá það! Eitt af því sem stendur hæst upp úr! Sjá hvernig fólkið lifir, alveg ótrúlega frumlegt! Svín og beljur á beit í görðunum og berrasaðir sætir krakkar út um allt, munkar hér og þar og húsin mjög fátækleg! Einstaka hús voru rosa skrautleg og fín og voru það þá búddahús. Myndavélin mín stóð því miður e-ð á sér þennan dag og ég því með engar myndir, en mun redda mér þeim fljótlega frá öðrum.
Einn daginn þarna í skóginum lentum við svo í svakalegri hitabeltisrigningu! Það var eins og væri sturtað úr fötu!! Það var rosalegt! Sem betur fer varði það nú ekki nema í ca klst.




Þá var ferðinni heitið til sódómu Bangkok! Þvílík subbu og sóðaborg! Hún er ógeð! Við reyndum að vera bara sem mest á hótelinu því mengunin og sóðaskapurinn úti er ekki mönnum bjóðandi. Við heimsóttum háskólann í Bangkok og sumarhöll konungsins og musteri þar í kring. Það var mjög flott...allt úr skíragulli og skraut og svona í hámarki! Allt mjög öfgafullt!




Síðan lá leið til eyju sem heiti Koh Samet og er pínulítil eyja í Gulf of Thailand. En fyrst komum við við í leiruviðarskógi, sem er skógur sem vex á árósum, sem sagt í mjög blautum jarðvegi sem er í raun bara leðja og drulla. Þarna sáum við sjóinn í fyrsta skiptið í meira en viku og það var ótrúlega skrítið hvað það var ótrúlega góð tilfinning að sjá hann og alla víðáttuna sem honum fylgir.
Eftir skógarferðina fórum við með ferju yfir til Koh Samet, sem var algjör paradís. Þar fengum við líka loksin ætan mat. Grillað sjávarfang og engin ógeðslega sterk krydd. Ég var bara búin að lifa á hrísgrjónum og mandarínum hingað til. Við komum að kvöldlagi og misstum okkur í að fara út í HEITANN sjóinn. Hann var án gríns heitur! Ekki volgur, heldur heitur! Síðan vaknaði ég voða snemma og gat einfaldlega ekki sofnað aftur, ég kíkti út um gluggan og sá þá þessa paradís betur, ég stóðst ekki mátið og fór ein út á strönd! Þetta var ólýsanlegt, að vera alein á ströndinni í smátíma...svo komu nokkrar tælenskar stelpur og vildu endilega mynda mig á ströndinni. Þetta var alveg ekta staður og ekta móment til að vera ein með kærastanum sínum á. Við fórum svo í siglingar um svæðið í kring og snorkluðum frá okkur allt vit, enda mikið að sjá í þessum ótrúlega tæra sjó. Nóg af kórölum og skrítnum fiskum og öðrum sjávardýrum.



Næst fórum við aftur til Bangkok í 2 daga þar sem við fórum í alls kyns skoðunarferðir í gömul musteri og rústir og fórum í siglingu niður á sem liggur í gegnum borgina. Seinasta kvöldið var hátiðarkvöldverður og skemmtiatriði og eftir það hættum við okkur útaf hótelinu og á einhvern bar í borginni! Það er mjög spes að labba um Bangkok upp á strýluð, ljóshærð stelpa um nótt! Það er GLÁPT á mann og fólk var MJÖG ágengt, það er ekki þæginlegt! Það var mikið verið að bjóða manni á Ping Pong show og fleira í þeim dúr! En ef þið vitið ekki hvað það er þá fer það þannig fram að konur setja ping pong bolta inn í leggöngin á sér og spýta þeim út! Rosa spennandi ekki satt! Þá gera þær víst fleira með þessum velþjálfuðu grindarbotnsvöðvum sínum, eins og að slökkva á kertum, blása í lúðra og ég veit ekki hvað og hvað. Nokkrir krakkarnir fóru á svona og sögðu að þetta væri ógeðslegt en samt alveg hrikalega fyndið! Því miður dó myndavélin mín þegar við komum til Bangkok og ég komst ekki í raftækja mollið til að kaupa nýja fyrr en daginn sem við fórum frá borginni.
Næsta dag tók við smá panik! Við áttum að tékka okkur út af hótelinu um hádegi og við vorum ekki búin að finna stað til að vera á næstu 10 daga! Það reddaðist nú samt á ca klst. Við fórum á netkaffi og bókuðum flug og hótel á stað sem heitir Krabi og stutt frá Phuket í Suður Tælandi en er ekki eins mikill ferðamannastaður en samt nóg að gera fyrir ofvirka Íslendinga. Við vorum næstum ein á hótelinu enda algjört low season þarna núna.

Á Krabi var yndislegt! 5 stjörnu hótelið stóð alveg undir sínu með 2 sundlaugagarða og bar ofaní einni sundlauginni og ég veit ekki hvað og hvað, ströndinn var eitt skref í burtu og á henni voru apakettir sem við fórum nokkrum sinnum að gefa að borða. Þá leigðum við okkur hraðbáta einn daginn og fórum í siglingu í kringum eyjarnar sem voru þarna fyrir utan, Koh Phi Phi! Það var líka eitt af því sem stóð upp úr ferðinni! Þetta var svo rosalega fallegt! Við snorkluðum og snorkluðum og það var frábært að synda með marglitum fiskum allt í kringum sig, algjört æði! Þá fórum við einnig á eyju sem er víst eyjan sem the Beach var tekinn upp á! Hún var líka svona ideal paradís! Þetta var einn besti dagurinn!
Restin af fríinu var nýtt í leti á sundlaugabakkanum og á ströndinni, borðað góðan mat og látið sólina aðeins skína á sig...það var samt ekki hægt að gera það eins mikið og á ströndunum hérna í Evrópu, sólin var stingandi sterk! Hrikalegt! Þá var líka tekið hörkudjamm einstaka sinnum!


Eftir mánuð í þessu framandi landi var gott að hugsa til þess að vera á leiðinni heim, ég hefði samt alveg getað verið miklu lengur þarna enda rosalega margt sem hægt er að skoða og njóta. Hefði viljað að Óli hefði verið með mér, hefði kannski notið þess betur! Ekki það að ég naut þess ekki í tætlur, en þegar maður er á svona einstökum stað sem maður veit að mun verða fast í minni manns að eilífu, vill maður njóta þess með þeim sem manni þykir vænst um!

Ég mæli EINDREGIÐ með því að fara í ferð til Tælands! Þetta er snilldarland! En ég fékk líka að sjá margar hliðar á því, ekki bara ströndinna og ferðamannaiðnaðinn, heldur einnig daglegt líf fólks, fátækt og uppbyggingu í landinu, stórkostlega náttúru jafnt á landi og í sjó og margt fleira. Þegar maður er í svona framandi landi í svona langan tíma fer maður líka að hætta að kippa sér upp við hlutina sem maður sér en eru samt mjög framandi, ég held ég nái því aldrei að lýsa því sem ég upplifði og sá í þessari ferð. Þetta er bara eitthvað sem allir verða að gera, að fara til svona framandi lands, sem er enn svona óspillt!

Kveðja
Anna María

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta hljómar frekar spennandi og öfunda ég þig talsvert í dag...ólíkt því sem ég gerði fyrir nokkrum mánuðum síðan.

Ég er reyndar ekki mikill aðdáandi framnandi skordýra og padda þannig að ég veit ekki hvernig ég myndi bregðast við þeim.

Nafnlaus sagði...

Gaman að lesa þessa ferðasögu. Þetta virkar virkilega spennandi. Mikið ógeðslega langar mig í svona ferð...
...kannski maður skelli sér bara í líffræðinám næst :p

Eða fer bara á eigin vegum þegar börnin verða orðin stór ;)

Guðný systir

Þorsteinn Snæland sagði...

það er alveg ljóst að maður er allt of steiktur varðandi það að skoða heiminn betur... og er ég sammála andra með það að þetta sé spennandi.

kannski er þetta byrjunin að nýrri hugsun hjá mér....dadara da

Nafnlaus sagði...

Ég er sammála fyrrum ræðumönnum þetta hljómar ekkert smá spennandi og ég get ekki beðið eftir að geta upplifað eitthvað svipað einhvern tíman. Ég krefst þess að fá nákvæmari ferðasögu samt þegar ég kem heim 4.júlí :) Hlakka til að sjá ykkur öll

kv. Gerður Rún

Nafnlaus sagði...

Vá þvílíkt ævintýri!!! Þetta er algjörlega eitthvað sem maður á eftir að gera .... helst bara sem allra fyrst ;)

Kv... Hildur

Anna María sagði...

já já, ég á örugglega eftir að tala um þessa ferð í marga mánuði.....

Þorsteinn Snæland sagði...

það var nú samt gott að þú stiklaðir bara á stóru....hahahahahah

Brynjar sagði...

Ég ætlaði að fara að kommenta á það:) Les þetta einhverntíman þegar ég hef nokkra klukkutíma aflögu.

Anna María sagði...

Fyrir þá sem geta ekki lesið stiklurnar mínar :) hef ég sett flestallar myndirnar á netið

http://public.fotki.com/marianna349/

Nafnlaus sagði...

VÁ!!!!
Ég er orðlaus.
Klukkan er að verða eitt og augnlokin eru farin að þreytast, en þetta ævintýri er alveg þess virði að vaka lengur og sperra augun yfir lestri;)

Nafnlaus sagði...

Anna mín, ég héld ég turfi ad útskýra fyrir tér hvad stiklad á stóru týdir;;;) he he